Jólaball Ísfán á annan í jólum

Hið árlega og sívinsæla jólaball Ísfán verður haldið með pompi og prakt þann 26. desember 2012 á milli klukkan 13 og 16 í Egå Forsamlingshus á Egå Mosevej, 8250 Egå.

Fyrirkomulagið er sem fyrri ár þannig að allir eiga að koma með eitthvað girnilegt á hlaðborðið sem verður glæsilegra með hverju árinu. Það jafnast ekkert á við íslenskt hátíðarhlaðborð!

Það verður hlustað á íslenska jólatónlist, hægt verður að versla íslenskt sælgæti og auðvitað appelsín og malt og þegar allir eru orðnir úttroðnir af marengstertum, smákökum og heitum brauðréttum þá gæti vel farið svo að jólasveinninn kíkti í heimsókn og drægi lítil sem og fullorðin börn út á gólf til að syngja og dansa í kringum jólatréð. Börnin fá svo að sjálfsögðu glaðning frá sveinka!

Þetta er skemmtilegasti barnaviðburður ársins! Ef þið eruð ekki á klakanum yfir jólin, komið þá endilega og fáið með okkur smá íslenska jólastemmningu beint í æð.

Ein ábending að lokum… opnunartími verslana í Árósum er að skána (eða versna…) en er þó ekki nálægt því orðinn jafn geggjaður og á Íslandi þar sem alltaf er opið allan sólarhringinn… það er því skynsamlegt að versla inn og undirbúa hvað þú ætlar að koma með á hlaðborðið á meðan verslanir eru opnar og eitthvað fæst í þeim

Við hlökkum til að sjá ykkur og óskum ykkur gleði og friðar fram að því.

Stjórnin, í þessu líka fína jólaskapi

Skráðu þig á jólaballið á facebook!

Takk fyrir Jólaföndrið

Við í stjórninni viljum þakka öllum duglegu föndurstelpunum fyrir yndislega jólahuggu síðastliðin þriðjudag. Allar mættu með jólaskapið og var mikið hlegið. Jólaskreytingarnar vor hver annarri flottari, enda miklar listakonur hér á ferd.

Jólaknús!!!

Mikilvæg skilaboð til Íslendinga erlendis vegna alþingiskosninga 2013:

Frestur til að kæra sig á kjörskrá er 1. desember 2012.
Samfylkingin vill vekja athygli Íslendinga, sem búsettir hafa verið erlendis í lengri tíma, á eftirfarandi:

Vilji íslenskir ríkisborgarar, sem búsettir hafa verið erlendis í 8 ár eða lengur, kjósa í næstu
alþingiskosningum þurfa þeir að að kæra sig inn á kjörskrá – fyrir 1. desember 2012.

,,Íslenskur ríkisborgari sem búsettur er erlendis getur sótt um að verða tekinn á kjörskrá við kosningar til Alþingis, kjör forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur uppfylli hann neðangreind skilyrði:

  • Að hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.
  • Sé 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram.
  • Hafi einhvern tíma á ævinni átt lögheimili á Íslandi og ekki sé liðinn lengri tími en 8 ár frá því hann fluttist þaðan.
  • Hafi sótt sérstaklega um að verða tekinn á kjörskrá, ef liðinn er lengri tími en 8 ár frá því hann átti lögheimili á Íslandi, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag.

Umsókn er fullnægjandi ef hún er:

  • Undirrituð af umsækjanda sjálfum á eyðublað sem þjóðskrá lætur í té.
  • Staðfest af umsækjanda upp á æru og trú að hann sé enn íslenskur ríkisborgari.
  • Útfyllt með fullu nafni umsækjanda, kennitölu hans, heimilisfangi utan Íslands, síðasta lögheimili á Íslandi og hvenær flutt var frá Íslandi.“ (heimild: skra.is)

Umsókn verður því að hafa borist Þjóðskrá Íslands (ekki sendiráði eða ræðismannsskrifstofu) fyrir 1. desember til þess að umsækjandi geti öðlast kosningarrétt við alþingiskosningar 2013.

Hægt er að skila eyðublaðinu rafrænt með því að auðkenna sig fyrst á www.island.is og þá þarf ekki að undirrita. Eyðublaðið er fyllt út og skjalið vistað í tölvunni, því næst er farið í netskil á vefnum til að skila rafrænt. Ef eyðublaðinu er ekki skilað rafrænt skal það undirritað og sent í bréfpósti til Þjóðskrár Íslands eða sent með faxi.

Umsóknareyðublaðið er hér: 
http://www.skra.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5829

Ef þú þarft á frekari upplýsingum eða aðstoð að halda hafðu samband við okkur í síma 00354-4142200 eða kosningar2013@samfylking.is.

Með kveðju frá Samfylkingunni,
Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og Íris Björg Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri alþingiskosninga 2013.

Jólaskreytingarkvöld með meiru

Þá er komið að því að við hittumst í Grænlendingahúsinu, eigum saman huggulegt jólakvöld og búum til aðventukrans, krans á hurð, jólaskreytingar eða hvað sem ykkur langar til að gera. Hrafnhildur Þorleifsdóttir blómaskreytingarsnillingur á staðnum til leiðbeiningar og ráðgjafar

Þannig að það er alveg sama þótt að þú hafir aldrei gert þetta áður, því hún er alveg frábær i að kenna okkur og aðstoða. Hún mun einnig taka með sér nokkra kransa til viðmiðunar og sem eru til sölu.

Í ár höfum við ákveðið að breyta aðeins til og bjóða öllum Aarhusar búum (og nágrennis) sem hafa eitthvað handverk til sölu að koma og selja þetta kvöld. Þetta gæti t.d. Verið skartgripir, málverk, prjóna eða hekklu vörur eða jólskraut. Nú er tækifæri að selja og kaupa jólagjafir, afmælisgjafir eða bara vegna þess að þig langar í eitthvað 🙂

Athuga: Komiði með það skreytingarefni sem þið ætlið að nota. En Hrafnhildur mun líka koma með eitthvað efni sem verður til sölu.

Við munu sjá um að hella upp á kaffi og vera með jólatónlist, selja íslenskt sælgæti.

Staðsetning:
Det Grønlandske hus
Dalgas Avenue 52
8000 Aarhus C

Þriðjudaginn 27. nóvember kl: 20 opnar húsið
Fyrir þá sem vilja selja opnar húsið 19:30.

Hlökkum tilað sjá ykkur bjóðum nú jólastemmninguna velkomna til Aarhus og eigum saman huggulegt kvöld