Íslensk kvikmyndaveisla í Árósum

Either_Way Still

Sjö nýlega íslenskar kvikmyndir sýndar í Øst for Paradis 23. – 29. mars.

Íslenskir kvikmyndadagar hefjast í kvikmyndahúsinu Øst for Paradis laugardaginn 23. mars. Kvikmyndafræðingurinn Birgir Thor Møller opnar hátíðina kl. 17 og sýnd verður kvikmyndin „Á annan veg“ eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson. Léttar veitingar verða í boði að sýningu lokinni.

Fjölmargar kvikmyndir
Fleiri kvikmyndir verða á dagskrá dagana 23. – 29. mars.: „Rokland“ eftir Marteinn Þórsson, „Eldfjall“ eftir Rúnar Rúnarsson, „Okkar eigin Ósló“ eftir Reyni Lyngdal, „Borgríki“ eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson, „Kóngavegur“ eftir Valdísi Óskardóttur og „Mamma Gógó“ eftir Friðrik Þór Friðriksson.

„Djúpið“ eftir Baltasar Kormák verður svo frumsýnd í Øst for Paradís síðar á þessu ári.

Dagskrá íslensku kvikmyndadaganna er að finna á www.paradisbio.dk.

Øst for Paradis og Birgir Thor Möller stóðu að undirbúningi íslensku kvikmyndadaganna í samvinnu við Cinemateket, Sendiráð Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Icelandair.

www.facebook.com/islandskefilmdage

Georg Guðni – Landslag

Einkasýning á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn
28. október – 30. desember, 2011

Fram til andláts listamannsins Georgs Guðna (1961-2011),  langt fyrir aldur fram síðastliðið sumar, leitaðist hann við að túlka íslensku birtu og landslag í myndum sínum. Honum tókst að vefa saman himin og jörð, þar sem að skörp skilin eru útmáð eða við það að leysast upp, og ekki er ljóst hvort landið er tekið að svífa eða loftið að síga, þar til þau að lokum renna saman.

Innblásturinn kom meðal annars frá rómantískum sem og hefðbundnum landslagsmálurum norðurlandanna, en að námsárunum loknum, fór hann að skapa sinn eigin stíl og fara sínar eigin leiðir. Sú leið sem hann valdi var á bóg við samtíma listamenn, sem flestir virtust leitast í alþjóðlegri áttir.

Mesti innblásturinn kom þó frá íslenskri náttúru; fjöll, gljúfur, dalir, eldfjöll og síðast en ekki síst hinar óendanlegu hraunbreiður. Hann var sonur jarðfræðings, og á uppvaxtarárunum ferðaðist hann um landið þvert og endilangt og kynntist mikilfenglegu og fjölbreyttu landslagi.

Innblásturinn frá uppvaxtarárunum og minningarnar af landslaginu voru honum drifkraftur það sem eftir var. Því þrátt fyrir að Georg Guðni væri umvafinn landslaginu í hversdagsleikanum, málaði hann út frá minningunum. Hvatningin í myndum hans er landslag minninganna sem hann vakti til lífs, og leiddi þar með hið jarðneska yfir til hins djúpa og frumlega.

Georg Guðni var menntaður frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands (1980-85)  og Jan van Eyck Akademie í Hollandi (1993-95). Sýningar með verkum hans hafa verið víðsvegar á Norðurlöndunum og í Ameríku, hann tók við mörgum viðurkenningum og verðlaunum og var nokkrum sinnum útnefndur til Carnegie Art Award, síðast árið 2002.

Landslag er fyrsta einkasýning á verkum Georgs Guðna í Danmörku.  Sýningarstjórar: listfræðingur og -gagnrýnandi, MA. Bente Scavenius og listfræðingur MA. Lars Olesen.

Hægt er að skoða myndefni á vefsíðunni: www.bryggen.dk

Opnun Hyggestuen /gallerý

Opnum opinberlega Hyggestuen / Gallerý þann 06.08.2011, kl. 10:00 – 13:00.

Vonum ad sjá sem flesta í morgunkaffid og Hygge. Tad verda íslenskir listamenn sem munu skreyta veggi og hillur med list sinni. Hlakka til ad hitta fullt af íslendingum.
Hægt er ad fá gistingu á stadnum,.

Vi åbner officielt Hyggestuen / Galleri den 06.08.2011, kl. 10:00- 13:00
Vi håber at se mange af vores venner og andre som har interesse for íslandsk kunst.

Ljósmyndasýning: “Herrar, Menn og Stjórar”

Norðurbryggja í Kaupmannahöfn opnar ljósmyndasýninguna Herrar, menn og stjórar föstudaginn 10.júní nk.

Árið 2010 voru liðin 35 ár frá fyrsta kvennafrídeginum á Íslandi. Sögu dagsins og baráttu kvenna fyrir jafnrétti í launum og kjörum þekkja flestir. Ljósmyndasýningin „Herrar, menn og stjórar“ sýnir myndir af 35 konum ásamt hugleiðingum þeirra um starf sitt eða um lífið og tilveruna. Þær konur sem myndaðar voru fyrir sýninguna eiga það sameignilegt að starfsheiti þeirra endar á „herra“, „maður“ eða „stjóri“ eða að þær gegna eða gengdu starfi sem hér áður fyrr var álitið karlmannsstarf. Konurnar voru myndaðar á vinnustöðum sínum við sem eðlilegastar aðstæður.

Það er ekki eingöngu ætlunin með sýningunni að minnast kvennafrídagsins, heldur fyrst og fremst að minna á hversu sterkt afl í íslensku atvinnulífi konur eru og hversu mikið staða þeirra á atvinnumarkaði hefur breyst á undanförnum árum. Hér er í raun verið að benda á augljósa hluti: Konur eru að sinna alls konar störfum í dag, jafnt á við karlmenn, en samt er launamismunurinn enn sá sem hann er.

Ljósmyndasýningin „Herrar, menn og stjórar“ er tileinkuð Vidísi Finnbogadóttur. Árið 2010 voru liðin 30 ár frá því að hún var kosin forseti íslenska lýðveldisins.

Ljósmyndasýningin „Herrar, menn og stjórar” var sett upp á nokkrum stöðum á Íslandi árið 2010 og þann 10. júní 2011 opnar sýningin á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn.

Anna María Sigurjónsdóttir er sjálfstætt starfandi ljósmyndari og býr í Reykjavík. Hún stundaði nám við ljósmyndun í Bandaríkjunum og útskrifaðist með BA í ljósmyndun árið 1993 og MFA í árið 1995 frá Savannah College of Art and Design sem er einkarekinn listaháskóli í Bandaríkjunum. Hún kenndi BA nemendum með mastersnáminu og vann við ljósmyndun í Bandaríkjunum að námi loknu. Hún hefur haldið 25 sýningar hér heima og erlendis, sem og samsýningar og setið í dómnefndum vegna ljósmyndasýninga nú síðast fyrir Blaðaljósmyndarafélag Íslands. Myndir eftir hana hafa birst í bókum og erlendum tímaritum. Sýningin á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn er fyrsta sýning Önnu Maríu í Danmörku.