Hagnýtar upplýsingar

Smelltu á fyrirsagnirnar fyrir neðan til að sjá greinarnar

Atvinna

Hægt er að leita sér að vinnu og skrá sig hjá ýmsum aðilum á netinu. Dönskukunnátta hefur mikið að segja þegar sótt er um vinnu. Ef viðkomandi er ekki atvinnulaus þegar flutt er til Danmerkur þarf flutningurinn að vera vegna uppsagnar eða fjölskylduástæðna. Flytji viðkomandi út vegna uppsagnar verður að hafa uppsögnina með sér eða vottorð um uppsögn. Fjölskylduástæður geta til dæmis verið að maki fari í nám í Danmörku. Til að halda fullum réttindum í verkalýðsfélagi þarf viðkomandi að vera kominn í vinnu innan 8 vikna frá flutningi og vinna í 13 vikur, þar sem vinnuvikan er 37 tímar. Að öðrum kosti er ekki hægt að flytja áunnin réttindi frá Íslandi til Danmerkur.

Mikilvægt er að skrá sig strax í einhvern „A-kasse” um leið og viðkomandi hefur fengið vinnu.

Bankamál

Athuga þarf við val á banka að gjaldskrá bankanna er misjöfn enda þjónustan afar mismunandi varðandi yfirdrátt og vexti. Gott er að viðskiptabankinn á Íslandi sé í beinum viðskiptum við viðkomandi banka í Danmörku.
Notkun kreditkorta og debetkorta eru ekki alltaf auðveld. Hægt er að nota þau í flesta hraðbanka en það er á fáum stöðum sem tekið er við t.d. kreditkorti í búðum og nánast hvergi íslensku debetkorti.

Debetkortin í Danmörku nefnast “Dankort” og þarf viðkomandi að hafa danska kennitölu til að verða sér úti um það. Nokkrar tegundir af Dankortum eru í gangi og ganga sum ekki í hraðbankana. Í sumum bönkum fær maður ekki Dankort fyrr en eftir 3 mánuði, þannig að ráðlegt er að spyrjast fyrir um það áður en stofnað er til viðskipta við ákveðinn banka. Það sem fólk fær til þess að byrja með eru bankakort, “Hævekort”, þau er eingöngu hægt að nota í hraðbanka viðkomandi banka. Ákveðin Dankort eru einnig Visa kort, þannig að hægt er að nota þau erlendis.

Þegar greiddur er gíróseðill í dönskum bönkum eða pósthúsum, er tekið þjónustugjald, “Gebyr”. Á pósthúsum er það 11 DKK sem bætast við upphæðina á gíróseðlinum, en í bönkum er það komið upp í 15 DKK á hvern seðil. Kostnaðurinn lækkar niður í 1 DKK á seðil ef borgað er í gegnum “Netbank”, heimabanka. Hægt er að sækja um aðgang að honum strax þegar sótt er um Dankort, eða hvenær sem er í sínu útibúi.

Barnabætur / Meðlagsgreiðslur

Íslendingar fá greiddar barnabætur í Danmörku og þarf ekki að sækja um þær sérstaklega. Barnabætur eru greiddar út ársfjórðungslega og er fyrsta greiðsla hvers árs þann 20. janúar. Til að fá barnabætur greiddar út þann 20. janúar þarf að vera búið að skrá sig inn í landið fyrir 1. janúar. Það sama á við um hina greiðsludagana. A.m.k. einu sinni á ári er sent út yfirlit til viðkomandi yfir hvað hann fær mikið greitt.
Í Danmörku er einnig veittur fjárhagslegur styrkur til einstæðra foreldra og tvíburaforeldra. Jafnframt geta foreldrar sem eru í námi sótt um auka barnabætur. Þetta er þó bundið skilyrðum og þarf að sækja um það sérstaklega. Við mælum með að viðkomandi lesi sér nánar til um það:

Familie og børn

Til þess að fá meðlag greitt þarf að koma með staðfestingu frá sýslumanni um að móðir eða faðir fari ein/einn með forsjá barnsins. Sú almenna reglar gildir að borgað er út grunn fjárhæð í hverjum mánuði sem samsvara þeirri upphæð sem danir fá þ.e.a.s. Århus kommune dekkar þá upphæð. Aftur á móti það sem vantar upp getur maður beðið kommune að rukka inn fyrir mann. Mánaðarlega er sendur seðill heim sem þarf að fylla út og sendur er til baka til kommune svo að hún getir rukkað inn. Þessi mismunur fæst ekki greiddur fyrr en sá aðilið sem á að greiða meðlaga hefur greitt það.

Bílamál

Í Danmörku eru bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki talsvert dýrari en á Íslandi. Af þeim ástæðum er hjólreiðanotkun og notkun almenningsfarartækja talsvert meiri en á Íslandi, enda hægt að fara allra sinna ferða á hjóli eða í strætó. Verð á bílum kemur námsmönnum sem og öðrum oft í opna skjöldu þegar fjárfesta skal í bifreið. Aðflutningsgjöld á bifreiðum eru líka þau hæstu sem um getur í Evrópu og þótt víðar væri leitað.
Námsmenn sem ætla ekki að vera lengur en í 8 ár eiga rétt á að greiða aðflutningsgjöld (ath. ekki virðisaukaskatt) samkvæmt svokallaðri 1% reglu. Gildir þá einu hvort um er að ræða innflutning á notuðum bíl eða kaup á nýjum í DK. Reglan gengur út á það að viðkomandi greiði 1% á mánuði af reiknuðum aðflutningsgjöldum fyrir þann tíma sem ökutækið er á dönskum númerum. Greitt er fyrirfram á sex mánaða fresti. Ef veran í landinu fer fram yfir þennan tíma gjaldfellur skuldin. Þá er annað hvort að greiða upp skuldina eða flytja bílinn úr landi til þess að forðast leiðindi af hálfu tollayfirvalda. Þessi regla gildir eingöngu fyrir námsmenn og krefjast tollayfirvöld staðfestingar frá skólayfirvöldum um að viðkomandi sé í námi, einnig þarf að hafa með sér vegabréf eða samnorrænt flutningsvottorð til að sýna fram á þjóðerni sitt.
Þeir sem hyggja á innflutning á notuðum bílum, skulu hafa það í huga að best er að láta tollayfirvöld reikna sjálf út verðandi aðflutningsgjöld áður en lagt er til atlögu. Hér er um hreinan reglugerðarfrumskóg að ræða. Afrit af skrásetningarskírteini verður að fylgja fyrirspurn ásamt upplýsingum varðandi ýmiss atriði, má þar nefna akstur og aukahluti (vökvastýri, samlæsingar og fl.). Sé viðkomandi ökutæki ekki til á lista tollayfirvalda (týpan ekki verið áður flutt inn til DK) má gera ráð fyrir því að lenda í hærri flokki en lægri. Frá þessu er gengið hjá:

ToldSkat Østjylland
Margrethepladsen 4
8000 Århus C
Sími: 7237 7000
Fax: 7237 7001

Gott er að skoða: www.toldskat.dk

Bætur

Um er að ræða tvennskonar bætur. Annarsvegar „A-kasse“ og hinsvegar „Bistand“. „Bistand“ er greiddur af borginni og er greiddur þeim sem ekki hafa rétt á atvinnuleysisbótum frá verkalýðsfélagi. „A-kasse“ eru atvinnuleysisbætur frá verkalýðsfélagi.

„A-kasse“ er atvinnuleysistryggingasjóður verkalýðsfélags. Til þess að geta flutt öll áunnin réttindi hjá verkalýðsfélagi á Íslandi til verkalýðsfélags í Danmörku þarf að hafa með sér svokallað E-301 eyðublað. Þetta eyðublað fæst hjá Atvinnuleysistryggingarsjóði. Sjóðurinn útfyllir eyðublaðið og mælt er með að tala við þá að minnsta kosti mánuði fyrir brottför því það getur tekið langan tíma að fá þetta eyðublað útfyllt með nauðsynlegum upplýsingum sem þarf að sækja til verkalýðsfélags. Auk E-301 eyðublaðsins þarf að taka með afrit af launaseðlum síðustu 6 mánaða. Einstaklingur sem fær greidda atvinnuleysisbætur á Íslandi og flytur til Danmerkur, á að geta gengið beint inn í danska „A-kasse“ kerfið fyrstu 3 mánuðina, meðan leitað er að vinnu. Mikilvægt er að hafa samband strax við “A-kasse” þegar byrjað er að leita af vinnu, því þannig hjálpa þeir viðkomandi að koma sér af stað.

Einnig má geta þess að þeir sem hafa lokið námi í ákveðinni faggreina á meðan þeir dveljast hér í landi og ætla sér að vinna hér í landi á meðan t.d. maki þeirra klárar nám, skal hafa samband strax við “A-kasse” innan síns fagsviðs, ekki seinna en 2 vikum eftir að síðasta prófi er lokið. Þannig er hægt að fá rétt á atvinnuleysisbótum sem nýútskrifaður.

„Bistand“ er ekki unnt að fá ef maki (giftur) stundar nám og fær námslán frá Íslandi (þó eru til undantekningar). Einstaklingar og ógiftir sambýlingar geta fengið „bistand“ ef þeir eru ekki í námi. Hins vegar er „bistand“ greiddur út í takmarkaðan tíma og er þessi tími metinn í hverju tilfelli fyrir sig af “kommune” og félagsmálaráðuneytinu. Þetta mat byggist á þeim líkum að fá vinnu í landinu sem útlendingur. Ef talið er að litlar eða engar líkur séu á atvinnu og engar aðrar ástæður eru fyrir dvöl í Danmörku (t.d. fjölskyldutengsl) hefur ráðuneytið rétt til að hætta greiðslu „bistands“ og býðst til að borga fargjald heim, aðra leið. Nú eru reglurnar þannig að ef aðili þarf á félagslegri hjálp að halda og mál hans er metið þannig að hann eigi rétt á hjálp, þá er hann skikkaður í svokallaða „aktivering“ (atvinnubótavinnu). Aðili undir 30 ára verður að vinna 30 klst. á viku en sá sem er orðinn eldri verður að vinna 37 klst. á viku. Einnig eru aðilar oft sendir í nám eða námskeið. Ef fólk tekur ekki þá vinnu sem það er sent í þá missir það bæturnar.

Dagvistun

Dagvistun (dagmæður, leikskólar og skólagæsla) barna er hægt að sækja um þegar búið er að skrá sig inn í landið. Mælt er með að fólk skoði það mál sem fyrst eftir komu, því reikna má með einhverri bið eftir plássi. Ef barn hefur verið á biðlista á Íslandi eftir dagvistun eða verið í einhvers konar dagvistun er rétt að koma með staðfesta pappíra á dönsku eða ensku þar af lútandi. Pláss á leikskóla, “børnehave”, er hægt að sækja um frá fyrsta degi þess mánaðar sem barn verður eins árs. Það er misjafnt hvort að leikskólar taki börn inn tveggja eða þriggja ára.
Yfirleitt getur barn fengið pláss á vöggustofu eða hjá dagmömmu frá 6 mánaða aldri. Ef barn kemst ekki inn á vöggustofu eða leikskóla er því boðið pláss hjá dagmömmu. Dagmæður eru ráðnar af hinu opinbera og er barni úthlutað dagmömmu og gestadagmömmu ef dagmamman verður veik eða fer í frí. Allir hlutir eins og barnavagnar, kerrur og leikföng er skaffað af hinu opinbera. Ef fjölskylda er með fleiri en eitt barn í dagvistun er einungis borgað fullt gjald af dýrasta plássinu og síðan helming af hinum.
Gjöld fyrir dagvistun eru tekju- og barnatengd. Til að fá niðurgreidd dagvistunargjöld er sótt um niðurgreiðslu, svokallað „friplads“. Þegar reiknað er út hversu há niðurgreiðslan er eru teknar samanlagðar tekjur á heimilinu (ekki námslán) og dregin frá viss upphæð fyrir hvert barn, það sem eftir stendur er notað til að reikna hvort eða hversu mikið greiða á fyrir dagvistunina.
Á þessari slóð eru fleiri upplýsingar:
Børnepasning i Århus Kommune
Á þessari slóð er yfirlit yfir barnavistunarstaði:
http://portal.aarhus-m1.dk/htm/type.php
Umsókn um dagvistun á netinu.

Dönskunám

Hægt er að sækja námskeið í dönsku hjá ýmsum aðilum. Er kennt bæði á daginn og á kvöldin. Rétt er þó að athuga að flestir Íslendingar hafa næga grunnþekkingu til að byrja á öðrum eða þriðja áfanga. Nánari upplýsingar og skráning fer m.a. fram hjá námskeiðshöldurum.
Dönskunám í Århus:
Århus Kommunes Sprogcenter

Þegar viðkomandi hefur skráð sig inn í landið getur hann farið til sinnar „kommune“ og fengið þar ábendingu um hvar er hægt að sækja námskeið í dönsku. Viðkomandi er þá vísað á námskeiðsstað innan sinnar „kommune“. Viðkomandi getur einnig sjálfur valið hvert hann fer. Nánari upplýsingar er að finna á þessari heimasíðu:
http://www.ug.dk/Uddannelse/

Þar er sagt frá hvernig sótt er um námskeið, hvernig námskeiðin byggjast upp, hverjir hafa rétt á styrk til námskeiða o.s.frv.

Það er auðvitað mjög misjafnt hvernig Íslendingar eru staddir í dönsku máli þegar þeir koma til Danmörku. Námskeið fyrir útlendinga henta oft ekki Íslendingum vegna þess að þeir hafa það mikinn grunn eftir grunnskóla- og framhaldskóladönskuna. En áfangi þrjú í dönsku fyrir útlendinga ætti að gera Íslendinga öruggari í málinu og þar er einnig komið inn á menningu og siði í dönsku þjóðfélagi.

Á eftirfarandi heimasíðum er hægt að skoða hvaða önnur námskeið eru í boði í Danmörku:
www.vidar.dk 
www.ug.dk

Grunnskólar

Í Århus eru mjög margir grunnskólar og eru þeir hverfaskiptir eins og á Íslandi, þó virðast vera einhverjar undantekningar á því. Grunnskólakerfið er mjög svipað kerfinu á Íslandi. Börnin byrja árið sem þau verða 6 ára í „børnehaveklasse“ og fylgja á eftir bekkirnir 1., 2., og upp í 9. bekk. Rík áhersla er lögð á að koma erlendum börnum sem fyrst inn í málið og er þeim veitt stuðningskennsla til að byrja með. Hægt er að sjá yfirlit yfir grunnskóla í „Århus kommune“ og nærliggjandi „kommune“ með því að smella hér.

Húsaleigubætur

Sótt er um húsaleigubætur (boligsikring) „boligstøtte“ hjá Århus kommune.
Boligstøtte
Aldersrovej 22, 1.
8200 Århus N

Opið: mánudaga, þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga kl. 9 – 12, á fimmtudögum einnig kl. 16 – 17:15 en á miðvikudögum er lokað.

Það er einnig hægt að sækja um húsaleigubætur á netinu. Ef farið er inn á heimasíðuna www.aarhus.dk þá er linkur þar inn á Århus kommune vinstra meginn merktur „boligstøtte“ en til þessa að þessi möguleiki gangi upp þarf að sækja um lykilorð hjá TDC.

Hægt er að sækja um húsaleigubætur fyrir allar leiguíbúðir, eina skilyrðið er að íbúðin hafi sér eldhús og bað. Húsaleigubæturnar eru reiknaðar út frá stærð íbúðar, fjölskyldustærð og tekjum heimilisins. Með tekjum heimilisins er átt við tekjur allra íbúa í húsnæðinu og einnig tekjur barna ef þær fara yfir 15.200 DKK. Eingöngu er hægt að fá húsaleigubætur fyrir ákveðið marga fermetra á einstakling. Fyrir fyrsta aðila eru reiknaðir 65 fermetra og 20 fermetra á hvern aðila eftir það. Hjón með tvö börn geta því fengið húsaleigubætur fyrir 125 fermetra. Ef húsnæðið er stærra greiðast bætur í hlutfalli við þá stærð sem fjölskyldan á rétt á. Námsmönnum er bent á að námslán flokkast ekki undir tekjur.

Húsnæði

Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin að flytja til Árósa kemur oft upp það vandamál hvernig eigi að útvega sér húsnæði og hvaða möguleikar séu í boði. ÍSFÁN hefur sett saman smá lista yfir þá möguleika sem í boði eru fyrir Íslendinga.

Það getur verið flókið mál að finna sér húsnæði og oft nauðsynlegt að reyna að komast hjá löngum biðtíma húsaleigufélaganna. Það auðveldasta fyrir fólk sem vill leigja á almennum markaði er að skrá sig á heimasíður sem miðla leiguhúsnæði. Það eru bæði til heimasíður sem eru ókeypis svo sem http://koebogsalg.krak.dk oghttp://www.ahot.dk/bsdefault.asp sem einnig inniheldur marga tengla á húsnæðissíður. Einnig eru til síður þar sem hægt er að borga fyrir auglýsingu og að sjá auglýsingar um leiguhúsnæði fyrr en aðrir, t.d.www.boligportal.dkwww.boligannoncer.dk og www.lejebolig.net.Yfirleitt er hægt að skoða framboðið á þessum síðum án þess að borga, en þá hefur maður ekki aðgang að símanúmerum o.þ.h.

Algengasta húsaleiguform hér í Danmörku eru húsaleigufélög. Í Árósum eru nokkuð mörg húsaleigufélög og biðtími eftir húsnæði er allt frá 2 árum og uppúr. Því getur verið erfitt fyrir fólk að komast í leiguhúsnæði innan slíkra leigufélaga. Hægt er að skrá sig t.d. hjáhttp://www.aarhusbolig.dk sem er miðlun yfir nokkur húsaleigufélög.

Einnig má finna önnur húsaleigufélög með því að slá inn leitarorð “boligforening Århus” t.d. á www.google.dk eða á öðrum leitarvélum.

Alltaf þarf að greiða út tryggingu, “indskud”, áður en íbúð er afhent. Hægt er að sækja um svokallað „indskudslån“ hjá „Århus kommune“. Það er metið eftir fjárhag og aðstæðum hverrar fjölskyldu hvort hún á rétt á láni. Lánið er mjög hagstætt, vaxta og afborgunarlaust fyrstu fimm árin og er greitt upp á næstu fimm árum þar á eftir, þá með mjög lágum vöxtum. Ef tekjur aukast umtalsvert á lánstíma getur sveitarfélagið krafist hraðari endurgreiðslu.

Ef sótt er um húsnæði á stúdentagörðum í Århus getur verið gott að skoða þessa síðu: http://www.kollegie8000.dk
Hægt er að sækja um húsnæði á stúdentagörðum áður en staðfesting um skólavist er fengin og er rétt að notfæra sér það því erfitt getur verið að fá húsnæði. Einnig er hægt að fá upplýsingar um stúdentagarða hjá hverjum og einum skóla.

Aðrir nytsamir tenglar í húsnæðisleitinni:
www.aarhus.dk
www.sol.dk
www.jubii.dk
www.edc.dk

Þeir sem hafa hug á að vera á bíl og jafnvel eingöngu vinna í Danmörku, þá eru margir fallegir bæir í allt að 30 og 40 mín akstursfæri frá miðbæ Århus. Þeir sem vilja skoða þennan kostinn er bent á að skoða kort af Århus og umhverfi, finna bæi sem viðkomandi gæti hugsað sér að búa í og síðan slá nöfnum þeirra inn íwww.google.dk og þannig er hægt að finna upplýsingar um viðkomandi bæ, eins og húsnæði, störf, skóla o.s.frv.

LÍN og SINE

Samband Íslenskra Námsmanna Erlendis (SINE)

Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) er hagsmunafélag fyrir Íslendinga sem stunda nám í útlöndum. Í félaginu eru u.þ.b. 1500 félagsmenn sem stunda nám í allskyns fögum út um allan heim. Langflestir þessara námsmanna eru á námslánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Tilgangur félagsins er samkvæmt lögum þess að „gæta hagsmuna félagsmanna sinna sem stunda nám erlendis og vera tengiliður þeirra við þau stjórnvöld sem koma að kjörum þeirra á Íslandi“. Starfsemi SÍNE nær þó ekki einvörðungu til félagsmanna hverju sinni. Félagið hefur tekið að sér að halda utan um hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem hyggja á nám í útlöndum og sinnir ýmis konar þjónustu sem tengist þessu fólki. SÍNE hefur einnig á sínum snærum svokallaða trúnaðarmenn um allan heim. Lendi félagsmaður í erfiðleikum meðan á námi stendur, getur hann leitað til trúnaðarmanns sem aðstoðar eftir fremsta megni og vísar málinu áfram til skrifstofu SÍNE ef þörf krefur. Á heimasíðu SÍNE má finna upplýsingar um allt mögulegt sem viðkemur íslenskum námsmönnum erlendis.
Heimasíðan SÍNE er: www.sine.is

 Lánasjóður Íslenskra Námsmanna (LÍN)

Mikilvægt er að kynna sér vel hvort það nám sem ætlunin er að stunda sé lánshæft. Fólk er hvatt til að leita sér upplýsinga áður en farið er út, t.d. með því að fara í viðtöl hjá ráðgjöfum lánasjóðsins. Til að fá þessar upplýsingar er nauðsynlegt að vita hvert heiti náms og námsgráðu er á viðkomandi tungumáli. Sótt er um námslán á sérstökum eyðublöðum sjóðsins. Best er að leggja inn umsókn í maí eða júní, en í síðasta lagi fyrir 1. ágúst, fyrir nám sem hefst í september. Berist umsókn eftir 1. ágúst tekur hún gildi 2 vikum eftir að hún berst sjóðnum. Umsóknarfrestur rennur út 1. desember vegna láns á vorönn og 1. mars ef nám hefst eftir 1. apríl. Sækja þarf um framhaldslán fyrir hvert nýtt skólaár í síðasta lagi mánuði áður en önn hefst.
Til þess að eiga rétt á láni þurfa námsmenn að standast námsframvindukröfur viðkomandi skóla. Til að eiga rétt á fullu láni verða námsmenn að skila 100% árangri. Lánið skerðist hlutfallslega með minni námsárangri. Lágmarkslán er 75% lán. Undantekningar á ofangreindri reglu eru veittar vegna veikinda og 1. árs nemar erlendis geta fengið allt niður í 60% lán á fyrstu önn. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu LÍN eða hjá ráðgjöfum þar.
Heimasíða LÍN er: www.lin.is

 Alþjóðaskrifstofa Háskólastigsins

Upplýsingastofa um nám erlendis. Vantar þig upplýsingar um nám erlendis, þá er þetta rétti staðurinn til þess að byrja leitina:www.ask.hi.is

Læknisþjónusta

Almenn lækna og sjúkraþjónusta er áþekk því sem þekkist á Íslandi, en er fólki að kostnaðarlausu. Tannviðgerðir barna upp að 18 ára aldri eru foreldrum einnig að kostnaðarlausu. Mælt er með því að hafa meðferðis bólusetningar/heilsufarsbók barna og einnig læknabréf á dönsku ef um alvarlega sjúkdóma einhvers hefur verið að ræða.
Ef þörf er á læknisaðstoð utan vinnutíma og áður en farið er á slysamóttökuna skal hringja í síma: 8731 5050. Við símann sitja lærðar hjúkrunarkonur og meta hvert ástand, hvort að viðkomandi skuli koma eða tala við lækni. Ef slys ber að höndum er símanúmer neyðarþjónustunnar 112, þar er hægt að kalla á sjúkrabíl, slökkvilið eða lögreglu. Hringt er í neyðarnúmerið gjaldfrítt, einnig úr peningarsíma.

Nafngjöf

Þegar barn fæðist í Danmörku er skylt að gefa því eftirnafn samkvæmt dönskum lögum. Þegar dönsk hjón hafa sama eftirnafn er gert ráð fyrir því að barn taki það eftirnafn upp en við fæðingu er barn sjálfkrafa skráð með eftirnafn móður þegar foreldrar hafa ekki sama eftirnafn. Þó er hægt að sækja um að barn fái eftirnafn föður á þar til gerðu umsóknareyðublaði.

Hvað varðar Íslendinga sem stunda nám hér, þó ekki sé nema annað foreldrið, þá er hægt að sækja um undanþágu frá dönskum eftirnafnalögunum. Til þess að sækja um undanþágu þarf að skrifa bréf til skrifstofu „amtsins“ (sýsluskrifstofu), sem er þá Århus Amt. Þar þarf að koma fram að foreldrar búi í Danmörku eingöngu vegna náms og hafi hug á að flytja aftur til Íslands um leið og námi líkur. Með undanþágunni þarf að fylgja: Staðfesting um skólavist, giftingavottorð foreldra, fæðingarvottorð barns og foreldra. Athugið! Barn þarf að vera komið með skráð nafn/eftirnafn innan sex mánaða frá fæðingu, að öðrum kosti á fólk á hættu að fá sekt.

Heimilisfang sýsluskrifstofunnar er:
Århus Amt
Lyseng Allé 1
8270 Højbjerg
Sími: 8944 6666
Netfang: amt@ag.aaa.dk

Samgöngur

Samgöngur í Århus eru mjög góðar. Í Århus eins og víðar í Danmörku er ákaflega gott að ferðast um á reiðhjóli og má hiklaust mæla með þeim heilsusamlega ferðamáta. Um Århus ganga strætisvagnar og rútur með mjög stuttu millibili. Inn í Århus og úthverfi ganga gulir strætisvagnar sem kallast „Bybus“. Rútubílastöðin ,”Århus Rutebilstation”, og lestarstöðin, “Århus Hovedbanegarden”, er að finna í miðbæ Århus. Á báðum þessum stöðum er hægt að verða sér úti um bæklinga um áætlunarleiðir. Á rútubílastöðinni er hægt að kaupa miða/kort í strætisvagna/rútur og á lestarstöðinni er hægt að kaupa miða í lestina. Einnig er hægt að kaupa svokölluð klippikort í strætisvögnunum. Hægt er að fara inn á síðuna www.bus-info.dk og velja þar “Find rejsen her” og þar undir velja “Rejseplanen”. Þar er hægt að slá inn hvaðan maður vill fara og hvert og þannig fá upplýsingar um hvaða strætó/rútu er best að taka. Til þess að fara lengra út úr Århus og nánasta úthverfi er hægt að taka bláu rúturnar, “Rutebilerne”.

Frá Århus eru góðar lestarsamgöngur til annara borga og bæja í Danmörku sjá www.dsb.dk

Århus flugvöllurinn er í ca. klukkustundar akstursleið frá miðbænum, þaðan er hægt að fljúga til og frá Kaupmannahöfn. Heimasíða flugvallarins er: www.aarhuslufthavn.dk

Billund flugvöllurinn er í ca. 1 ½ klukkustundar akstursleið frá miðbænum. Þangað er flogið til og frá Íslandi einu sinni í viku yfir sumartímann. Heimasíða flugvallarins er: www.billundlufthavn.dk. Plúsferðir selja ferðirnar.

Skráning inn í landið

Áður en farið er frá Íslandi þarf að ná sér í samnorrænt flutningsvottorð sem fæst hjá Hagstofu Íslands.

 

Borgartúni 21a
105 Reykjavík
www.hagstofa.is

Það verður að skrá sig inn í landið seinast 5 dögum eftir komu til Danmerkur. Við skráningu fær viðkomandi danska kennitölu, en það getur tekið allt upp í tvær vikur að fá hana senda. Á sumum stöðum er hægt að hafa samband við „kommune“ og fá uppgefna kennitöluna ef viðkomandi vantar hana nauðsynlega vegna einhvers. Við skráningu velur maður sér heimilislækni og fær svo sent sjúkrasamlagsskírteini, sem þarf alltaf að hafa með sér, hvert sem maður fer, einnig börnin. Á sjúkrasamlagsskírteininu kemur fram kennitala viðkomandi og heimilislæknir. Þegar skráning fer fram er hægt að velja um að vera meðlimur í þjóðkirkjunni í Danmörku eða ekki. Þeir sem velja að vera í þjóðkirkjunni borga 0,9 % meira í skatt (kirkjuskattur) en þeir sem ekki eru í þjóðkirkjunni. Norðurlandabúar sem dvelja skemur en 6 mánuði í landinu er ekki skylt að skrá sig.
Skráning í Århus fer fram hjá:

Århus Folkeregister
Søren Frichs Vej 36 G
8230 Åbyhøj
Sími: 8940 4275
Fax: 8940 4279
E-mail: folke@aarhus.dk

Mánudaga – föstudaga 10.00 – 15.00
Fimmtudaga 10.00 – 17.15

Tryggingar

Hægt er að leita til ýmissa aðila þegar tryggja á bíl, innbú eða annað. Þeir helstu sem sjá um þessi mál eru, almenn tryggingafélög, bankar og stéttarfélög. Mikill mismunur er á verði og skilmálum og er best að kynna sér vel hvað í boði er áður en endanlegt val fer fram. Taka skal fram að ekki er allsstaðar hægt að tryggja innbú á stúdentagörðum, „kollegie“, og er best að spyrja sérstaklega að því ef viðkomandi býr á „kollegie“. Þegar leitað er eftir tilboðum t.d. varðandi tryggingar á bíl þá skal hafa meðferðis staðfestingu frá því tryggingafélagi sem tryggt var hjá á Íslandi svo unnt sé að flytja áunninn bónus á milli tryggingafélaga.

Möguleiki er á að gerast meðlimur í sjúkratryggingafélagi, „Danmark sygeforsikring“. Sem meðlimur fær viðkomandi endurgreiddan hluta af útgjöldum, m.a. vegna: Meðalakaupa, tannlæknakostnaðar, gleraugnakaupa og kaupa á augnlinsum. Bæklingar og eyðublöð liggja frammi á flestum læknastofum og apótekum.

Í Danmörku þarf að tryggja hunda sérstaklega og er hægt að gera það hjá hvaða tryggingafélagi sem er. Ef hundur er skráður í DKK, Dansk Kennel Klub, þá bjóða þeir gott tilboð á hundatryggingu.