Lög ÍSFÁN

Lög Íslendingafélagsins í Árósum og nágrenni samþykkt á aðalfundi
16. september 2006

 • 1. Nafn og hlutverk
  • 1.1 Félagið heiti Íslendingafélagið í Árósum og nágrenni, -islandsk forening -, med skammstöfunina Í.S.F.Á.N.
  • 1.2 Heimilisfang félagsins er hjá formanni þess á hverjum tíma ef félagið hefur ekki fast aðsetur.
  • 1.3 Hlutverk félgasins er að stuðla að innbyrðis samskiptum félagsmanna, ásamt söfnun og dreifingu upplýsinga um félagsleg málefni Íslendinga á félagssvæði þess. Félagið skal leitast við að eiga samstarf við önnur félög Íslendinga í Danmörku um sameiginleg hagsmunamál. Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með félagsfundum og skemmtanahaldi.
 • 2. Félagar
  • 2.1 Félagar geta orðið allir Íslengingar sem búsettir eru í Árósum og nágrenni, og nágrenni, og aðrir þeir sem áhuga hafa á málefnum félagsins.
  • 2.2 Fullgildir félagar eru allir þeir sem lagt hafa inn skriflega beiðni um að fá að gerast félagar.
 • 3. Aðalfundur
  • 3.1 Aðalfundur félagsins er æðsta vald þess.
  • 3.2 Aðalfund félagsins skal halda í September ár hvert, og skal til hans boðað með minnst 7 daga og mest 20 daga fyrirvara. Lög félagsins skal senda út með fundarboði. Aðalfundur félagsins er lögmætur sé boðað til hans á lögmætan hátt.
  • 3.3 Seturétt, atkvæðisrétt og framboðsrétt á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar og nýskráðir félagar.
  • 3.4 Aðalfundur kýs 5 manna stjórn félagsins auk tveggja varamanna. Varamenn taka sæti aðalmanna á fundum stjórnar í fjarveru aðalmanns og þegar aðalmaður segir sig úr stjórn. Varamenn skulu vera stjórninni til aðstoðar við störf sín. Stjórnin skal síðan skipta með sér verkum í eftirfarandi embætt: Formaður, ritari, gjaldkeri og 2 meðstjórnendur.
  • 3.5 Kostning til stjórnar skal vera skrifleg.
  • 3.6 Í öllum málum ræður meirihluti greiddra atkvæða, nema þegar um lagabreytingartillögur er að ræða (sjá kafla 11.3)
  • 3.7 Dagskrá aðalfundar:
   • a) Fundur kýs fundarstjóra og fundarritara;
   • b) Skýrsla stjórnar um starfsemi liðins árs;
   • c) Skýrslur nefnda um starfsemi liðins árs;
   • d) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram;
   • e) Tillögur til lagabreytinga;
   • f) Endurskoðun árgjalda;
   • g)Stjórnarkosningar;
   • h) Nefndarkosningar;
   • i) Kostning tveggja endurskoðenda til eins árs;
   • j) Önnur mál;
   • k) Fundi slitið;
  • 3.8 Heimilt er að halda aukaaðalfund enda hljóti tillaga þess efnis minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aukaaðalfunda skal halda innan sex vikna frá aðalfundi. Verkefni aukaaðalfundar er að ljúka dagskrá aðalfundar.
 • 4. Stjórn félagsins
  • 4.1 Stjórn félagsins fer með æðsta vald þess milli aðalfunda enda sé ekki kosin önnur stjórn á starfsárinu, sbr. grein 6.2. Einnig sér hún um daglegan rekstur þess og gætir þess að lögum sé framfylgt.
  • 4.2 Starf formanns er í aðalatriðum:
   • a) Að kveða stjórn saman til funda og stýra þeim;
   • b) Að koma fram sem fulltrúi félagsmanna innan félagsins sem utan;
   • c) Hann hefur úrslitaatkvæði lendi atkvæði á jöfnu;
  • 4.3 Ritari stjórnar skal vera varaformaður.
  • 4.4 Ritari stjórnar skal sjá um að skráðar séu fundargerðir allra funda, í fundargerðabók félagsins.
  • 4.5 Ritari skal vera fulltrúi stjórnar í ritnefnd.
  • 4.6 Gjaldkeri stjórnar skal sjá um innheimtu útistandandi krafna og yfirumsjón með félagssjóði.
  • 4.7 Gjaldkeri sér um bókhald stjórnar, jafnframt því sem hann hefur yfirumsjón með sjóðum nefnda.
  • 4.8 Gjaldkeri situr sem fulltrúi stjórnar í þorrablótsnefnd og sér um bókhald nefndarinnar.
  • 4.9 Gjaldkera ber að skila af sér bókhaldi, tilbúnu til endurskoðunar minnst viku fyrir aðalfund.
  • 4.10 Formaður og meðstjórnendur stjórnar skulu sitja sem fulltrúar stjórnar í húsnefnd, íþróttanefnd og kórstjórn.
  • 4.11 Stjórn túlkar lög félagsins.
  • 4.12 Ritari skal halda gestabókum félagsins til haga. Gestabók skal liggja frammi á samkomum félagsins.
  • 4.13 Sérhverja samkomu félagsins skal að minnsta kosti einn stjórnarmeðlima eða fulltrúi sitja.
 • 5. Nefndir
  • 5.1 Eftirtaldar nefndir skulu starfa innan Íslendingafélagsins í Árósum og nágrenni.
   • a) Húsnefnd, sem skal skipuleggja og halda reglulega “opið hús” fyrir félagsmenn. Einnig skal nefndin sjá um framkvæmd jólatrésskemmtunar í samráði við stjórn. Í húsanefnd skulu starfa meðlimir kosnir á aðalfundi.
   • b) Barna og tómstundanefnd, sem skal halda uppi fjölbreyttu tómstundarstarfi fyrir félags auk þess að sjá um barnastarf félagsins. Einnig skal nefndin sjá um framkvæmd 17.júní hátíðar í samráði við stjórn. Í barna og tómstundanefnd skulu starfa fjórir meðlimir kosnir á aðalfundi.
   • c) Ritnefnd, sem skal sjá um að koma fróðleik, upplýsingum og fréttaefni til félagsmanna á sem hagkvæmasta og fljótasta máta sem unt er hverju sinni. Ritnefnd skal einnig safna auglýsingum til fjáröflunar fyrir félagið. Í ritnefnd skulu starfa minnst tveir meðlimir kosnir á aðalfundi.
   • d) Þorrablótsnefnd / árshátíðarnefnd, skal í samvinnu við stjórn félagsins sjá um undirbúning og framkvæmd þorrablóts/árshátíðar. Í nefndinni skulu starfa 5 meðlimir kosnir á aðalfundi, auk gjaldkera félagsins.
   • e) Kórstjórn, sem skal sjá um að halda uppi kórstarfi t.d. í tengslum við guðsþjónustu og aðrar uppákomur, innan félagsins sem utan. Kórstjórn skal útvega stjórnanda ár hvert og stjórna lagavali í samráði við hann. Kórstjórn skal sjá um framkvæmd guðsþjónustu í samráði við stjórn. Í kórstjórn skulu starfa 2 meðlimir kosnir á aðalfundi.
  • 5.2 Innan hverrar nefndar skal kjósa formann, ritara og gjaldkera. Formaður skal vera oddamaður hverrar nefndar.
  • 5.3 Nefndir skulu gera fjárhagsáætlanir í upphafi starfsárs, og skulu þær afhentar stjórn til samþykktar. Nefndum er síðan úthlutað fjármagni í samræmi við áætlanir og samþykktir eins og fjárhagur leyfir.
  • 5.4 Gjaldkerar nefnda skulu skila inn bókhaldi til gjaldkera stjórnar fyrir 1. apríl en þó síðast 10 dögum fyrir aðalfund.
  • 5.5 Gjaldkerum nefnda er skylt að leita samþykkis gjaldkera stjórnar áður en lagt er í kostnað umfram fjárhagsáætlun. Gjaldkeri stjórnar ráðfærir sig við minnst tvo meðlimi stjórnar, áður en slíkt samþykki veitist.
 • 6. Félagsfundur
  • 6.1 Félagsfund skal halda ef stjórn félagsins þykir þess þurfa, eða þess er krafist af minnst 20 fullgildum félagsmönnum. Slíkri kröfu skal ávallt fylgja ástæða fundarins. Kröfu um félagsfund skal komið í hendur formanni sem ber skylda til að boða fundinn eigi síðar en 6 dögum eftir móttöku kröfunnar. Skrifleg fundarboð skulu tilgreina ástæðu fundar og dagskrá.
  • 6.2 Sama gildir, sbr. Grein 6.1 ef ástæða fundarboðunar er framkomin vantrausttillaga á stjórn, enda sé þess krafist af minnst 40 fullgildum félagsmönnum. Sé vantrausttilaga samþykkt af 2/3 hluta atkvæðisbærra manna á slíkum fundi skal boða til aukaaðalfundar og færa með fundarboðun hans og dagskrá með sama hætti og um venjulegan aðalfund væri að ræða. Ný stjórn sem kjörin yrði á þeim fundi sæti fram að næsta lögbundna aðalfundi. Stjórn getur boðað til aukaaðalfundar með sama hætti ef t.d. stjórn er óstarfhæf. Stjórn er starfhæf þegar í henni sitja a.m.k þrír aðalmenn.
 • 7. Reikningsár
  • 7.1 Nýtt reikningsár félagsins hefst daginn eftir aðalfund.
 • 8. Sjóðir
  • 8.1 Alla sjóði Íslendingafélagsins í Árósum og nágrenni skal geyma á bankareikningi, eða á sem hagkvæmasta hátt.
  • 8.2 Það eru engin félagsgjöld innan félagsins.
 • 9. Slit félagsins
  • 9.1 Ef til félagsslita kemur, skal þess farið á leit við ræðismann Íslendinga í Árósum, að hann varðveiti eignir félagsins og hafi umsjón með fjármálum þess ef einhver eru. Síðasta stjórn félagsins skal greiða útistandandi skuldir og ráðstafa síðan eignum til ræðismanns. Ef um verður að ræða stofnun nýs félags Íslendinga í Árósum, skal réttkjörin stjórn fá eignir og fjárráð Íslendingafélagsins í hendur.
 • 10. Lög
  • 10.1 Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi.
  • 10.2 Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins minnst 7 dögum fyrir aðalfund og skulu þær liggja frammi á aðalfundi. Allar lagabreytingatillögur sem bornar eru uppi til atkvæða skulu vera skriflegar og afhentar fundastjórn sem ber þær upp.
  • 10.3 Til að lagabreytingar öðlist gildi þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða. Rétt til að leggja fram lagabreytingartillögur hafa allir fullgildir félagsmenn. Lög þessi öðlast þegar gildi og eru önnur lög félagsins þar með úr gildi fallin.